Project Description

Útkall - Í hamfarasjó

Útkall

Í hamfarasjó

Höfundur: Óttar Sveinsson
Útgáfurár: 2015

Bók númer: 22
Var í 6. sæti á metsölulista Félags íslenskra bókaútgefenda jólin 2015

Nýfundnalandsmið í febrúar 1959 +++ Á þriðja hundrað íslenskir togarasjómenn horfast í augu við dauðann +++ Eitthvert allra versta sjóveður sem Íslendingar hafa lent í á öldinni +++ Togarans Júlí frá Hafnarfirði er saknað með 30 mönnum +++ Fulllestaður liggur Þorkell máni frá Reykjavík eins og borgarísjaki á hliðinni +++ Skipverjar telja víst að síðasta stundin sé runnin upp +++ Öldurnar eru á við átta hæða hús +++ Einnig er barist upp á líf og dauða um borð í Harðbaki, Júní, Marz, Norðlendingi, Bjarna riddara og fleiri togurum +++ Tilkynning frá danska „Titanic“, Hans Hedtoft: „SOS, við sökkvum“ +++ Gerpir frá Neskaupstað heldur til móts við skipið

Skipin eru hlaðin stórhættulegri ísingu. Sjórinn er mínus tvær gráður svo að hver einasti dropi frýs. Í ógnarveltingi og blindbyl strita nær örmagna karlarnir úti á glerhálum dekkjum skipanna með þung og óhentug barefli. Ísinn hleðst svo ört upp að varla sér í brúna á skipunum – vírar og kaðlar eru eins og tunnur á þykkt. Áhöfn Þorkels mána bregður á það örþrifaráð að losa sig við björgunarbátana og logskera davíðurnar af til að létta skipið. Skipstjórinn hugleiðir að láta möstrin fara líka. Margir verða óvinnufærir vegna þreytu, ótta og meiðsla.Fram undan rísa tröllauknar öldurnar í sælöðrinu. Stöðugt gefur yfir togarana í bítandi brunagaddinum – og spáin er vond: áframhaldandi ofviðri, hamfarasjór og 10 stiga frost.